Heilun er hugtak sem yfirleitt er notað fyrir meðferð sem er ætlað að hafa áhrif á flæði orku um orkukerfi líkamans. Hugmyndafræðin á bakvið þessa meðferð er að um líkamann flæðir ósýnileg orka um orkubrautir og orkustöðvar sem einskorðast ekki einungis við líkamann heldur flæðir út fyrir hann og myndar orkusvið sem umlykja hann. Hlutverk meðferðaraðila (heilara) er að finna vanvirkni í orkubrautum, orkustöðvum eða orkusviðum og með handayfirlagningu eða öðrum ráðum koma jafnvægi á orkukerfin sem styðja við heilbrigði einstaklingsins.
Þessi orka, sem oftast er nefnd “lífsorkan” á íslensku ber heitið “qi” í Kína, “ki” í Japan og “prana” á Indlandi.
Heilun er með elstu formum lækninga og er mikilvægur þáttur í indverskum og kínverskum lækningum sem eru ein elstu lækniskerfi í heiminum. Í tímanna rás hefur fjöldi aðferða þróast til að hafa áhrif á orkukerfi líkamans.
Hvernig virkar meðferðin?
Þegar heildarinn hefur gert sér grein fyrir ástandi orkunnar eru notaðar ýmsar aðferðir til að leiðrétta hana. Handayfirlagning er algeng þar sem unnið er með orkuna í gegnum hendur meðferðaraðilans, auk þess sem hægt er að nota kristalla, tónkvíslar, nálar eða þrýsting á orkupunkta, ilmolíur og blómadropa eða samtalsmeðferð.
Hefðbundnar kínverskar lækningar, nálastungur, þrýstipunktanudd og svæðameðferð vinna yfirleitt með orkubrautir á meðan handayfirlagning, kristalar, tónkvíslar, ilmolíur og blómadropar vinnur yfirleitt á orkustöðvum og orkusviðum.
Handayfirlagningatími stendur yfirleitt yfir í um það bil eina klukkustund.
Árangur ætti að nást á fáum tímum til að minnka streituálag og síðan er hægt fylgja því eftir með reglulegum tímum með lengra millibili. Fyrir erfiðari þráláta sjúkdóma er langtíma meðferð meira viðeigandi og þá oft samhliða öðrum meðhöndlunum.
Þar sem heilun er svo vítt hugtak og hefur ekki verið samræmt að neinu leyti þarftu að finna heilara sem mætir þínum væntingum.
Þegar orðið heilari er notað kemur flestum í hug þeir heilarar sem nota handayfirlagningu til að heila orkustöðvar eða orkusviðin. Einnig er hægt að leita til meðferðaraðila eins og t.d. nálastungu-, svæðameðferðar- eða þrýstipunktameðferðaraðila til að koma jafnvægi á orku sem flæðir eftir orkubrautum.
Þeir sem hafa ýtarlegustu menntun á handaryfirlögnum eru meðal annars þeir sem hafa tekið skipulögð námskeið í handaryfirlögnum sem kallast reiki sem er sett saman af nokkrum stigum og þeir sem ná efsta stigi mega kalla sig „reikimeistari“
Möguleg vandamál eða aukaverkanir
Engar alvarlegar aukaverkanir eru þekktar af handayfirlagningum. Heilun kemur ekki í staðinn fyrir lækningar og lyf.